No Borders Iceland

Algjört ferðafrelsi!

Vegna kröfugöngu flóttamanna 3/12/2016

Laugardag 3ja desember munu flóttamenn koma saman á Hlemmi kl. 13:30 og hefja göngu niður Laugaveginn klukkan 14:00. Gengið verður að Austurvelli þar sem boðið verður upp á ræðuhöld og kaffi.

Kröfurnar eru þrjár:
Að réttur flóttafólks til atvinnu verði virtur
Að allar umsóknir fái efnislega meðferð og notkun Dyflinnarreglugerðarinnar hætt
Að Útlendingastofnun (UTL) verði lögð niður

Réttindi flóttamanna sem koma til landsins á eigin vegum og sækja um vernd hérlendis hafa alla tíð verið af skornum skammti og stjórnvöld skeytt allt of lítið um ábendingar þar um eða kröfur um endurbætur. Þar til síðasta ríkisstjórn tók við hafði þessi málaflokkur þó verið að þokast í rétta átt, ekki síst með aukinni athygli og aðhaldi almennings.

Þróunin snérist hins vegar við með síðustu ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og undanfarin ár hafa stjórnvöld kerfisbundið grafið undan bæði lögbundnum og alþjóðlega viðurkenndum réttindum þess margleita hóps fólks sem um ræðir. Breið samstaða almennings um að gera betur og bjóða fleira flóttafólk velkomið til landsins hefur verið hunsuð og þess í stað hafa gamlir sigrar tapast á ný. Baráttan hefur þannig að mörgu leyti snúist aftur til fyrri ára.

Rétturinn til atvinnu

Á meðal þess sem tapast hefur er réttur flóttafólks í biðstöðu til atvinnu. Réttindi þessi eru skráð í 23. gr. Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna þar sem segir meðal annars „ Allir eiga rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi.“ Fyrir flóttafólk snúast þessi réttindi ekki einungis um það augljósa, að fá að sjá fyrir sér og sínum, vera ekki upp á aðra komið, halda virðingu sinni og mega taka þátt í samfélagi. Fyrir flóttafólk í biðstöðu getur atvinna skorið úr um hvort fólk haldi geðheilsu sinni og styrk á meðan það bíður í algjörri óvissu um framtíð sína, mánuðum og jafnvel árum saman. Að hafa daglegt hlutverk og eitthvað að gera, eitthvert að fara, er oft munurinn á því hvort fólk sé að þrotum komið, lífsneistinn horfinn, eða ekki, þegar það loksins fær svar um hvort það fái að setjast hér að – eða verði neytt til þess að halda áfram leit sinni að öryggi og mögulegri framtíð, oft fyrir bæði sig og börnin sín.

Fyrir utan hrottaskapinn sem í þessu felst hlýst þar að auki verulega aukinn kostnaður af þessum réttindabrotum. Fyrst af því að þurfa að halda uppi fólki sem getur og vill ólmt vinna fyrir sér sjálft. Seinna af heilsubrestum sem hljótast af því að engjast um í óvissu í lengri tíma með ekkert fyrir stafni, og því óþarfa erfiðleikum við að komast aftur af stað og inn í samfélagið ef og þegar jákvæð niðurstaða fæst.

Að sjálfsögðu er öllu flóttafólki mikilvægast að fá að njóta öryggis og að vera ekki sent til baka í þær hættulegu aðstæður sem það upphaflega flúði. Málið er það að rétturinn til atvinnu hefur einnig reynst mikilvægur til þess að auka möguleika flóttafólks á jákvæðu svari. Þegar tengsl hafa verið mynduð við samfélagið og einstaklinga innan þess aukast líkurnar á því að komast í gegnum klúðurslegt og ómannúðlegt kerfið, og um leið erfiðara fyrir yfirvöld að henda einstaklingunum úr landi þegjandi og hljóðalaust. Líklega hafa yfirvöld áttað sig á þessu og af þeim sökum dregið til baka þessi sjálfsögðu réttindi, og það þrátt fyrir að aukinn kostnaður hljótist af.

Dyflinnarreglugerðin og efnisleg meðferð umsókna

Dyflinnarreglugerðin veitir heimild til þess að senda þá sem sækja um vernd hérlendis til baka til fyrsta viðkomustaðar innan Schengen. Sú heimild hefur löngum verið notuð og misnotuð sem afsökun fyrir því að líta aldrei til efnislegra þátta í umsóknum flóttamanna, heldur einungis þess hvort fingraför hafi verið tekin í öðrum löndum Schengen, og því hvort önnur ríki muni þurfa að veita þeim viðtöku samkvæmt reglugerðinni. Þá virðist engu máli skipta hvort aðstæður í þeim löndum sem fólk er sent til séu viðunandi, eða hvort búast megi jafnvel við því að lífi og mannhelgi viðkomandi verði stefnt í hættu með endursendingunni.

Hið augljósa: Ísland er fámenn eyja á norðurhjara. Fáum frá stríðshrjáðum löndum og ríkjum þar sem mannréttindabrot eru viðtekið ástand er mögulegt að komast hingað án viðkomu annars staðar á leiðinni. Það þýðir að í flestum tilvikum megi endursenda fólk annað með tilvísun í Dyflinnarreglugerðina, að minnsta kosti þegar hún er túlkuð mjög þröngt og án samhengis annarra laga og alþjóðlegra samninga. Eins og Útlendingastofnun hefur unnið þessi mál hafa önnur lög, önnur réttindi fengið ítrekað og kerfisbundið að lúta í lægra haldi gagnvart þem heimildum Dyflinnarreglugerðarinnar sem vitnað er í. Skyldur íslenska ríkisins, til dæmis í samræmi við mannréttindasáttmála fá engu breytt og Útlendingastofnun skeytir lítið um slíka pappíra.

Á sama tíma er fámenni landsins og einsleitni takmarkandi samfélagi og hagkerfi. Jafnvel Samtök atvinnulífsins hafa lýst yfir þörf á um 5000 manns til viðbótar árlega svo halda megi uppi hagvexti og koma til móts við þarfir vinnumarkaðarins. Þar sem langsamlega flestir flóttamanna sem hingað komast eru bæði viljugir og færir um að taka þátt á vinnumarkaði væri það því augljós og tafarlaus hagur Íslands að bjóða velkomna þessa nokkur hundruð einstaklinga sem hafa bæði vilja og þörf til þess að vera hér og byggja þetta samfélag með okkur; veita því fjölbreytni og búa sér um leið betri, örugga framtíð. Um leið myndi þar að auki sparast óþarfa kostnaður, ekki síst við að lögfræðingar UTL finni einhvers konar lagaflækjuflöt á því að synja umsóknum, og ofbeldisfullar brottvísanirnar sem iðulega fylgja.

Útlendingastofnun (UTL) og hin kerfisbundna grimmd

Það hefur ítrekað sýnt sig að ekki nægir að breyta lögum í rétta átt því Útlendingastofnun heldur áfram að gera það sem þeim sýnist, hvernig sem vindar vilja almennings og löggjafans blása. Stofnunin hefur kerfisbundið brotið á réttindum skjólstæðinga sinna af mikilli grimmd, ekki síður barna en fullorðins fólks, með það eitt að markmiði að losna við sem flest þeirra úr landi. Einna eftirminnilegast var þegar Útlendingastofnun ákvað að senda Eze Okafor með ofbeldi úr landi þrátt fyrir að kærunefnd útlendingamála, henni æðra stjórnvald, hafði komist að því að brottvísun myndi brjóta í bága við Dyflinnarreglugerðina, ofan á allt annað. Starfsfólk UTL hefur ítrekað tjáð sig um mál og málefni skjólstæðinga sinna til þess að draga úr trúverðugleika þeirra og forstjóri stofnunarinnar, Kristín Völundardóttir, hefur talað um að flóttafólk geri það gjarnan að gamni sínu að sækja um alþjóðlega vernd. Ein síns liðs tók Útlendingastofnun upp á því að stuðla að enn frekari einangrun flóttafólks í bið. Nú síðast hóf stofnunin að hóta endurkomubanni til Schengen, dragi umsækjendur um vernd ekki umsókn sína til baka og fari úr landi „sjálfviljugir,“ án þess að mál þeirra hafi verið tekið til skoðunar.

Eins og nú er löngu komið fram var Útlendingastofnun, áður Eftirgrennslanadeild Ríkislögreglustjóra og svo Útlendingaeftirlitið, byggð á grunni ofsóknarbrjálæðis nasismans og seinni heimsstyrjaldar. Eftirlit var hennar helsta hlutverk, með það að markmiði að halda Íslandi öruggu fyrir vondum útlendingum. Svo virðist sem stofnunin hafi aldrei náð að hrista af sér þetta upprunalega hlutverk sitt og innan hennar lifi áfram það viðhorf að útlendingar séu eitthvað fyrirbæri sem sæki í sífellu á íslenskt samfélag og halda þurfi í skefjum landinu til verndar. Þannig er líka betur hægt að skilja hvernig stofnunin og starfsfólk hennar getur réttlætt fyrir sér öll undanbrögð og heybrókarskap gagnvart skjólstæðingum sínum, þegar stofnanabundin vænisýkin telur starfsfólki sínu trú um að öryggi landsins alls sé í hættu. Við hin, sem lifum á árinu 2016, og vitum að útlendingar eru almennt bara manneskjur, fólk, ekki ósvipað þeim sem hér búa fyrir, getum hins vegar ekki sætt okkur við að sjúk viðhorf til útlendinga fái ráðið lífi og limum raunverulegra manneskja, eða traðki í sífellu á réttindum þeirra. Þess vegna hljótum við að krefjast þess með flóttafólki að þessi ómanneskjulega stofnun, sem er og verður áfram barn síns tíma, verði lögð niður, og þess í stað verði mannréttindi og mannúð höfð í fyrirrúmi.

Stöndum með flóttafólkinu okkar!

Sýnum stuðning okkar í verki með því að ganga við hlið flóttamanna í dag, laugardag 3. desember. Mætum og göngum til stuðnings réttindabaráttu flóttafólks og um leið hagsmuna samfélagsins alls. Sýnum flóttafólki landsins, og um leið stjórnvöldum, að okkur stendur ekki á sama og að við sættum okkur ekki við hrottaskapinn og mannréttindabrotin lengur!

Viðburðurinn á Facebook: Refugees Protest // Mótmæli flóttamanna

Kirkjugrið rofin

Síðastliðna nótt fjarlægði lögreglan með valdi og ofbeldi tvær manneskjur, aðra barn að aldri, úr Laugarneskirkju þar sem þær stóðu við altarið meðal fólks sem mætti til þess að sýna þeim samstöðu.

Á meðan ofbeldi brottvísana er ætíð það sama og alltaf jafn sársaukafullt að horfa upp á var þessi skelfilegri en oft vegna þess hvað framganga lögreglunnar í boði íslenska ríkisins sýndi skýrt fram á algjört virðingarleysi fyrir hverju því sem kann að verða í vegi hennar. Staðurinn, rýmið, kirkjan, og hefðin fyrir friðhelgi slíkra staða, virtist ekki nokkru máli skipta:

Enginn lögregluþjóna virtist neitt frekar staldra við eða veita hugsunum sínum eða tilfinningum nokkurt vægi, nema þá mögulega sá sem sló til viðstaddra sem gerðust svo djörf að eiga við hann orðastað um barnið sem hann var að handtaka með harkalegum og ofbeldisfullum hætti;

Enginn lögregluþjóna virtist neitt frekar velta því fyrir sér hvort hún/hann vildi áfram ganga erinda ríkisins, þrátt fyrir að það þýddi brot á mannhelgi og virðingu manneskja, þar á meðal barni, sem gerðu engin mistök önnur en að fæðast í vitlausu landi;

Enginn lögregluþjóna virtist neitt frekar byrja að átta sig á því að „þetta er bara vinnan mín“ varð óásættanleg afsökun í síðasta lagi á fyrri hluta síðustu aldar.

Ólöf neitar enn að hitta okkur

Í kjölfar svara Ólafar Nordal um að hún hafni því að hitta okkur því hún ræði ekki einstök mál viljum við koma eftirfarandi atriðum á framfæri:

Þó núna, og í þessu tiltekna máli, sé gríðarlega mikilvægt að hún grípi til sinna ráða og beiti valdi sínu til þess að sækja Eze Okafor til að koma í veg fyrir að hann muni þurfa að snúa aftur til Nígeríu, þá snýst þetta mál einmitt ekki eingöngu um hans mál, heldur þá staðreynd að Útlendingastofnun misbeiti valdi sínu gróflega gagngert til þess að koma einstaklingi úr landi. Ef fyrir slíkum gjörðum liggur þögult samþykki ráðherra þá er ekkert því til fyrirstöðu að Útlendingastofnun misbeiti valdi sínu aftur síðar.

Við viljum einnig benda henni á að með þessum gjörningi, þar sem Útlendingastofnun brottvísar manni til annars lands þar sem hann hefur enga lagalega stöðu og er ekki með opið hælismál, jafngildir brottvísun hans til heimalandsins, án þess að það hafi nokkurn tímann verið farið efnislega yfir mál hans hér á landi. Eze ber ör eftir hryðjuverkasamtökin Boko Haram og hann hefur hvergi hlotið efnismeðferð síðan að Boko Haram voru enn tiltölulega óþekkt utan landsteinanna. Síðan þá hefur margt breyst og eru þau nú einhver mannskæðustu hryðjuverkasamtök heims. Það hefur því ekki verið athugað hvort Eze sé óhætt að snúa aftur til heimlandsins áður en honum var vísað til Svíþjóðar þar sem við honum tekur krafa um að yfirgefa landið.

Innanríkisráðherra telur ef til vill að hún þurfi ekki að bregðast við, því Útlendingastofnun hafi rétt fyrir sér í rökstuðningi sínum, en við viljum benda henni á að svo er ekki. Útlendingastofnun segir ekki rétt frá í rökstuðningi fyrir brottvísun Eze Okafor sem hefur ekki verið birt opinberlega. Þetta gætum við rætt nánar við Ólöfu Nordal í eigin persónu en munum ekki ræða meira opinberlega. Við hörmum það að hún hafni fundi með okkur þar sem við gætum bent henni á rangfærslur undirstofnunar hennar, rangfærslur sem eru settar gagngert fram í þeim tilgangi að geta brottvísað manni í hættulegar aðstæður. Þetta er grafalvarlegt mál og snertir að sjálfsögðu hegðun stofnunarinnar í heild sinni, ekki bara mál Eze.

Eze var brottvísað á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, þó svo Svíþjóð áliti hann greinilega ekki lengur hælisleitanda þar, eins og sjá má á því að honum er gert að yfirgefa landið hið snarasta. Við bendum á að þetta samræmist augljóslega ekki tilgangi Dyflinnarreglugerðarinnar og skiljum ekki hvernig þetta getur gerst. Það er augljóst að það þarf að leita svara varðandi það hvernig stendur á því að Ísland telur sig vera að vísa flóttamanni úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, en móttökulandið telur sig ekki þurfa að taka við honum þar?

Eze var vísað úr landi þrátt fyrir að vera með opna umsókn um dvalarleyfi á grundvelli þess að hafa dvalið hér í yfir 2 ár vegna tafa á málsmeðferð hjá stjórnvöldum. Fyrir því leyfi er grundvöllur í lögum og á sú lagagrein augljóslega við í tilfellum hælisleitenda. Það er ótrúlegt að íslensk stjórnvöld telji það eðlilegt að vísa flóttamönnum til landa þar sem þeir hafa enga lagalega stöðu og eiga á hættu brottvísun til svæðis þar sem líf þeirra er í hættu, á meðan tekin er fyrir umsókn um dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Staðreyndin er sú að Útlendingastofnun, undirstofnun ráðherrans, hefur gróflega brotið á rétti einstaklings til lífs og frelsis. Þó málið eigi eftir að fara lögformlega leið innan kerfisins og fyrir liggi kvörtun til Umboðsmanns Alþingis, þá hefur Eze Okafor ekki tíma til að bíða þeirrar niðurstöðu. Fyrir liggur að honum verður ekki leyfilegt að dvelja í Svíþjóð eftir morgundaginn og gæti eftir það vænt brottvísunar hvenær sem er.

Örlög hans eru nú í þínum höndum, Ólöf Nordal.

No Borders Iceland

 

Fréttatilkynning No Borders vegna brottvísunnar Eze Okafor

Í morgun, fimmtudaginn 26. maí, var Eze Henry Okafor fluttur með flugi til Svíþjóðar þrátt fyrir úrskurð kærunefndar útlendingamála um að mál hans gæti ekki lengur fallið undir Dyflinnarreglugerðina. Í gær fóru fram hávær mótmæli við lögreglustöðina á Hlemmi, þar sem honum var haldið í varðhaldi þar til hann var fluttur um borð í flugvél til Svíþjóðar í morgun. Þrátt fyrir að tveir farþegar flugvélarinnar hafi mótmælt brottvísuninni og neitað að að setjast niður fyrr en Eze væri fjarlægður úr vélinni var ekki orðið við þeirri kröfu og voru farþegarnir handteknir en brottvísuninni haldið áfram. No Borders Iceland krefjast þess að Eze verði sóttur aftur til Íslands og veitt dvalarleyfi hið snarasta og að umsókn hans um stöðu flóttamanns verði tekin til efnislegrar skoðunar hér á landi. Ekki er vitað hver afdrif hans verða í Svíþjóð og óljóst er hvort sænsk yfirvöld muni vísa honum til Nígeríu. Íslensk stjórnvöld eru því með þessu að taka áhættu sem varðar líf hans og heilsu.

Í síðustu viku úrskurðaði kærunefnd útlendingamála að samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni sé of seint að senda Eze úr landi á grundvelli hennar. Því ber íslenska ríkinu að taka fyrir umsókn hans um hæli hérlendis. Þrátt fyrir það ákvað Útlendingastofnun að reka skyldi Eze úr landi fyrirvaralaust með vísun í Dyflinnarreglugerðina – þvert á lög og góða stjórnarhætti.

Eze Henry Okafor hefur verið á flótta frá heimalandi sínu, Nígeríu, síðan 2011. Honum tókst að flýja eftir hrottalega árás af völdum meðlima hryðjuverkasamtakanna Boko Haram, sem þó náðu áður að veita Eze varanlega höfuðáverka og myrða bróður hans. Hann sótti um hæli í Svíþjóð en umsókn hans var synjað á grundvelli uppruna hans árið 2012, þegar hryðjuverkasamtökin voru ekki orðin eins alræmd og þau eru í dag. Síðan þá hefur Eze búið á Íslandi þar sem hann hefur starfað, eignast vini og byrjað að læra íslensku. Hér vill Eze búa.

Líf Eze hefur einkennst af óvissu og ótta síðustu árin og hefur hann mátt þola ómannúðlega meðferð af hálfu yfirvalda í umsóknarferli sínu sem hælisleitandi. Fari Eze aftur til Svíþjóðar óttast hann að verða sendur til Nígeríu þar sem hans bíður enn meiri óvissa og hætta. Hans von um að fá að vera áfram á Íslandi og eiga möguleika á mannsæmandi lífi er ekki úti enn.

Við krefjumst þess að umsóknir flóttamanna verði teknar alvarlega, með sanngjörnum hætti og með hag manneskjanna sem um ræðir að leiðarljósi! Yfirvöldum ber að hætta tafarlaust að beita lögum og brjóta þau þvert á mannréttindi og mannúðlega meðferð!

No Borders Iceland

Yfirlýsing í innanríkisráðuneytinu 26. apríl

Boðað var til mótmæla vegna brottvísunar Wajde Rmmo og Ahmed Ibrahim og til að mótmæla meðferð stjórnvalda á Eze Henry Okafor. Að mótmælum loknum tók við setuverkfall sem stóð yfir í 2 tíma.

Á morgun, 27. apríl, stendur til að brottvísa Wajden Rmmo og Ahmed Ibrahim til Búlgaríu þar sem ekkert bíður þeirra annað en líf á götunni. Þeir hafa náð að koma undir sig fótunum hér en bíða þess að fá svar við umsókn um dvalarleyfi. Áður en íslenska ríkið tekur fyrir umsókn þeirra um dvalarleyfi vill það vísa þeim úr landi. Þeim er vísað úr landi þrátt fyrir að íslenska ríkið megi vita að þeim er ekki gerlegt að leita aftur til heimalandsins, og neyðast því til þess að fara aftur til Búlgaríu, þeirra fyrsta viðkomustaðar innan Evrópu. Þar hafa þeir engan samastað, enga vinnu, enga aðstoð og ekkert félagslegt net. Eftir að hafa flúið hörmungar stríðsins í Sýrlandi og þolað ömurlega meðferð í Búlgaríu hafði þeim loks tekist að hefja eðlilegt líf, aðeins til þess að íslensk stjórnvöld kippi undan þeim fótunum á nýjan leik. Við mótmælum þessari framkomu stjórnvalda og krefjumst þess að hætt verði við brottvísanirnar.

Einnig viljum við mótmæla harðlega ömurlegri meðferð íslenskra stjórnvalda á Eze Henry Okafor, sem dvalið hefur hér á landi undanfarin fjögur ár. Hann flúði hryðjuverkasamtökin Boko Haram í kjölfar þess að þau myrtu bróður hans og stungu hann sjálfan í höfuðið. Í þrjú og hálft ár barðist hann fyrir því að fá mál sitt tekið fyrir á Íslandi en fékk ávallt neitun á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Síðastliðið haust var frestur til að senda hann til baka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar liðinn og sótti Eze þá um dvalarleyfi á þeim grundvelli að hafa verið hér yfir tvö ár vegna málsmeðferðar íslenskra stjórnvalda, eins og heimild er til í útlendingalögum. Hann fékk vinnu og atvinnuleyfi, leigði sér íbúð og beið svars um dvalarleyfisumsóknina.

Í febrúar sl. fékk Eze hins vegar þau svör frá Útlendingastofnun að hann þyrfti að yfirgefa landið á meðan umsóknin væri tekin fyrir. Flóttamaður, sem er á dauðalista einhverra hættulegustu hryðjuverkasamtaka heims (Boko Haram eiga þann vafasama heiður að hafa myrt flesta af öllum hryðjuverkasamtökum heims árið 2014) á að yfirgefa landið á meðan dvalarleyfisumsókn hans er tekin fyrir. Hann er ekki einu sinni með lögleg ferðaskilríki af því að hann er flóttamaður. Hann hefur ekki enn fengið haldbærar upplýsingar um það hvert á að brottvísa honum, Útlendingastofnun segir að brottvísa eigi honum til Svíþjóðar samkvæmt ákvörðun hennar frá árinu 2012. Þar hefur hann samt engan rétt til að vera þar sem mál hans telst ekki lengur vera Dyflinnarmál, eftir að allur þessi tími er liðinn. Því veit hann ekki hvort hann honum verið vísað beint aftur til Nígeríu, þar sem hann óttast að hann verði myrtur af meðlimum Boko Haram, eða hvort Svíþjóð verði viðkomustaður á leiðinni.

Út frá sjónarhóli skynseminnar er fullkomlega óskiljanlegt að þessum þremur mönnum sé ekki gert kleift að dvelja hér á meðan umsóknir þeirra eru teknar fyrir. Þar sem Útlendingastofnun og Kærunefnd útlendingamála virðast hengja sig í eru ákvæði 1. mgr. 10. greinar laga um útlendinga (96/2002) þar sem segir að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta sinn eigi að sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins, en frá þessu megi víkja ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því eða samkvæmt reglum sem ráðherra setji.

Það er óskiljanlegt að aðstæður Wajden, Ahmeds og Eze falli ekki undir ríkar sanngirnisástæður. Útlendingastofnun og Kærunefnd útlendingamála hafa allar upplýsingar um mál þeirra og vita það fullvel að um flóttamenn er að ræða, sem hafa ekki möguleika á að skreppa fram og til baka milli landa eftir því sem íslenska ríkinu hentar hverju sinni. Að ekki sé hægt að gera undanþágu frá þeim reglum í tilfelli einhverra sem augljóslega eru flóttamenn er mjög mikill ósveigjanleiki og óbilgirni af hálfu kerfisins, ekki síst þegar lögin gera ráð fyrir sveigjanleika og mælast til um sanngirni.

Því mótmælum við þeirri túlkun á lögunum sem Útlendingastofnun og Kærunefnd útlendingamála hafa tekið upp hjá sjálfum sér og krefjast þess að fyrst þessar stofnanir neita að túlka flótta frá stríðástandi og dauða sem tilefni til að sýna „sanngirni“ – þá setji ráðherra slíkar reglur þar sem tillit er tekið til aðstæðna flóttamanna. Við krefjumst þess einnig að hætt verði við þessar brottvísanir og að Wajden, Ahmed og Eze fái leyfi til að dvelja hér á landi.

Fréttatilkynning vegna ólöglegrar brottvísunar fórnarlambs Boko Haram

Eze Okafor flúði hryðjuverkasamtökin Boko Haram í Nígeríu, sem vilja hann dauðan. Hann kom til Íslands frá Svíþjóð fyrir fjórum árum síðan og hefur síðan byggt upp sitt líf á Íslandi en hefur enn ekki fengið umsókn sína um stöðu flóttamanns skoðaða vegna tilvísana í Dyflinnarreglugerðina.
10. maí sl. úrskurðaði kærunefnd útlendingamála að það samrýmist ekki ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar að vísa Eze á brott á grundvelli hennar, til þess hafi of langur tími liðið.
Eftir að Eze og vinir hans á Íslandi fylltust von um að hann fengi loks að vera á Íslandi án sífelldrar hræðslu um að hann yrði sendur brott, ákvað Útlendingastofnun að virða að vettugi ákvörðun æðra stjórnvalds, kærunefndar útlendingamála. Útlendingastofnun hefur þannig ákveðið, þvert á úrskurð ærða stjórnvalds sem stofnuninni ber að fara eftir, að halda brottvísun til streitu.
Þvert á lög, Dyflinnarreglugerðina og ákvörðun kærunefndar útlendingamála hefur Eze Okafor því verið handtekinn til þess að vera sendur úr landi í fyrramálið. Þessu verður mótmælt fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu kl. 19:30 í kvöld, miðvikudag 25. maí, og þess krafist að Eze verði sleppt, að hann fái dvalarleyfi hið snarasta og að umsókn hans um stöðu flóttamanns verði tekin til efnislegrar skoðunar hér á
landi.
No Borders Iceland

„Ég get ekki meir”

Tekið af facebook síðu Söru Mansour, með hennar leyfi: 

Ég get ekki meir. Síðustu daga hef ég gengið um eins og í martröð. Ég er búin að öskra mig hása og ég skelf meðan ég skrifa þetta.

“Íslenska þjóðfylkingin?” Eins og Útlendingastofnun sé ekki að standa sig nógu illa er kominn stjórnmálaflokkur sem skilgreinir stefnu sína út frá hryðjuverkamönnum og predikar andúð á íslam? Flokkurinn er í sjálfu sér ekki áhyggjuefni – hann mun deyja út eins og allir aðrir flokkar sem spretta upp í andstöðu við tímabundna krísu. Það sem veldur mér áhyggjum (mjög vægt til orða tekið) er að slíkar manneskjur fyrirfinnist. Hversu mikla fáfræði, ótta og mannhatur þarf til að nokkur kenni sig stoltur við útlendingahatur/rasisma.

Ég er hálfur arabi. Ég viðurkenni fúslega þau forréttindi sem ég hef notið vegna þess að vera hálf hvít. En ég er líka fús til að afsala mér þeim svo staða manna jafnist um allan heim. Ég ætla ekki að sýna umburðarlyndi gagnvart “þetta er flókið” eða “málfrelsi”. Það er ekkert flókið við að taka afstöðu. Annað hvort styður þú fordóma, mannfyrirlitningu og eyðileggingu eða þú stendur fyrir uppbyggingu, kærleika og mannréttindum. Og, í eitt skipti fyrir öll, ég þarf ekki að virða þína skoðun ef sú skoðun vanvirðir tilvistarrétt annarrar manneskju.

Ég held ég hafi verið 10 ára þegar ég gekk upp að bekkjarsystkinum mínum í Hvassaleitisskóla og spurði forviða hvers vegna þau væru að kasta steinum í yngri strák (þið vitið hver þið eruð). Einn þeirra svaraði “Af því hann er gyðingur” en annar bætti við með ósvífni og myrkri í röddinni sem ég mun aldrei gleyma: “Nei, verra… Hann er múslimi.” Það er fátt sem ég hef séð meira eftir en að hafa ekki sagt eitthvað. Í staðinn fór ég inn á klósett og kúgaðist allar frímínúturnar. Einhvern veginn hafði þessum krökkum innræst að þau mættu grýta samnemanda sinn fyrir að hafa aðrar trúarskoðanir. Síðan er liðinn áratugur og fullorðið fólk stofnar Þjóðfylkinguna.

Ég get vel sett mig í spor þeirra sem eru frávita af hræðslu. Hryðjuverkaárásir eru ógnvekjandi. En það er ófyrirgefanlegt að setja sjálfan sig í sæti fórnarlambs og kenna svo raunverulegu fórnarlömbunum, múslimum, um. Ef þú skilur ekki tengslin milli stríðsreksturs, viðskipta, trúarbragða og mannréttindabrota, þá áfellist ég þig ekki – það er ekki beinlínis aðgengilegt fyrir íslensk ungmenni. Hins vegar er engin afsökun að nenna ekki að afla sér upplýsinga, sérstaklega á tölvuöld. Taktu upp bók, skoðaðu twitter aðganga, lestu fréttaskýringar! Það er í þínum höndum að rjúfa skilningsleysið, en ekki mitt hlutverk að fræða þig um hvernig á að vera almennileg manneskja.

Allt tal um að loka landamærunum, senda fólk aftur til heimalandsins eða jafnvel að gefa í skyn að íslensk menning sé á einhvern hátt æðri er í grunninn ein og sama hugmyndafræðin: manneskja af öðrum kynstofni, þjóðerni eða trúarbragði á ekki skilið að lifa við sæmd. Of sterkt til orða tekið? Nei, nefnilega ekki. Í grunninn snýst þetta um að stofna lífum þeirra í hættu til þess að verja okkur sjálf – að þau eigi ekki rétt á vernd vegna þess að þau fæddust annars staðar.
Þess vegna spyr ég Þjóðfylkingarmenn, “hermenn Óðins” eða hvaða nafni sem þessir baunaheilar kjósa að kalla sig: Geturðu tekið ábyrgð á orðum þínum? Geturðu lifað með líf annarra á samviskunni? Geturðu fylgst með ungabarni brenna í hvítu fosfóri? Heimilisföður nauðgað fyrir framan fjölskylduna sína? Unglingi gefið raflost til skiptis við sýruskvettingar? Konu nauðgað með hníf? Íþróttaleikvangi sprengt upp í tætlur? Stúlkubarni drukkna í Miðjarðarhafinu? Eða drengjum bundnum saman á höndum og fótum svo hermenn geti notað þá sem fótbolta þegar þeim leiðist? Ef þú getur ekki horft upp á það, skaltu halda kjaftinum lokuðum nema þú hafir eitthvað fallegt að segja. Ef þú getur látið það viðgangast fyrir framan nefið á þér og fundist þau verðskulda það, þá ert það ÞÚ sem átt ekki rétt á að lifa. ÞÚ ert hryðjuverkamaðurinn.

Vinsamlegast sendið þetta á þjóðernissinna sem þið þekkið svo þeir fái tækifæri til þess að segja mér að flóttamenn verðskuldi ekki mannsæmandi líf. Það er ekki hægt að vilja vísa fólki frá landinu ef maður er ekki tilbúin að horfast í augu við það sem bíður þeirra.

Ávarp til innanríkisráðherra, kærunefndar útlendingamála, útlendingaeftirlitsins

Flutt í innanríkisráðuneytinu 7. mars 2016:

Jæja Ólöf innanríkisráðherra og undirsátar, hingað erum við komin, enn einu sinni. Þú fréttir kannski af því að við vorum hérna fyrir 3 vikum af sama tilefni, einnig í desember í fyrra, árið þar á undan, reyndar töluvert oft í tíð fyrirrennara þíns eins og þú veist.  Kröfur okkar tilbrigði við sama stef- að vinum okkar, kunningjum, og samferðafólki sem hafa vaðið eld og brennistein til að komast hingað í von um að skapa sér friðsælt og mannsæmandi líf,  sé ekki vísað brott til þess helvítis sem það slapp lifandi frá. Við mætum hingað á markaðstorg ykkar hræsnaranna með gjallarhorn og háreysti til að þið heyrið okkur og sjáið og takið nú eftir:

-Við höfum fengið nóg af hinni handónýtu útlendingalöggjöf sem hefur það að markmiði að halda fólki frá landinu og gerir því ómögulegt að setjast hér að. Við höfum fengið nóg af hræsni ykkar og tvískinnungi þar sem þið- á tímum mesta flóttamannastraums í heiminum frá því í síðari heimsstyrjöld- af “náð” ykkar handveljið inn í landið lítinn hóp stríðshrjáðra sýrlenskra kvótaflóttamanna -og það aðeins vegna þrýstings alþjóðastofnana og almennings,- en vísið á sama tíma burt (sýrlensku) fólki sem hingað er komið af eigin rammleik og hefur þegar hafið nýtt líf.

-Við höfum fengið nóg af því að þið skýlið ykkur sífellt á bak við hina rotnu Dyflinarreglugerð og sendið hverja manneskjunaá fætur annarri  tilbaka ýmist í flóttamannahringekju Evrópu í misömurlegar aðstæður þar sem mislangan tíma tekur að missa vitið, eða bara strax beint í dauðann. Ungverjaland, Grikkland, Ítalía, -allt staðir þar sem innanríkisráðherra hefur sjálf sagt að aðstæður séu ómanneskjulegar enda gífurlegur fjöldi flóttamanna fyrir og við tekur líf á götunni. Búlgaría, Slóvakía, þar sem rasisminn ríkir og flóttamenn hírast ýmist í fangelsum eða hættulegustu ghettóum Evrópu. Svíþjóð, Noregur, Þýskaland, óvissa, óvissa, óvissa um óákveðinn tíma, en í upphituðu húsnæði.

-Við höfum fengið nóg af því að kerfislæg þjónkun við markaðsöflin er ávallt Uber alles, en mannúð, virðing fyrir mannslífum og samhugur með samferðafólki okkar aðeins skreyttar fjaðrir á tyllidögum, eins og kvótaflóttamannahópurinn er mjög gott dæmi um. . Á uppgangstímum eins og nú ríkja hér á landi er flutt inn í stórum stíl ódýrt, réttindalaust og meðfærilegt vinnuafl í gegnum kennitöluflakkandi starfsmannaleigur á meðan vinnandi fólki sem sótt hefur um hæli er miskunnarlaust vísað brott af landinu, og það helst í skjóli nætur. Að það þurfi stöðugt ákall og aðhald frá almenningi til ráðamanna, mótmæli, hneykslan og undirskriftarlista í nánast hverju einasta máli til að einstaklingar geti fengið að búa hér er algjörlega fyrir neðan allar hellur, og endurspeglar glöggt  gjána milli stjórnvalda og almennings.

-Við höfum fengið nóg af lyginni í ykkur. Hættið að brosa upp í opið geðið á okkur og halda því fram að þið séuð öll af vilja gerð að bæta kerfið meðan þið á sama tíma vinnið að því að vísa  fólki brott fyrr en áður, taka af því réttinn til að vera hér á meðan mál þeirra er tekið fyrir og á meðan sífellt er þrengt að aðgengi þeirra að réttarkerfinu. Ef þið viljið ekki gera neitt í málunum, verið þá bara heiðarleg og segið það hreint út. Segið það bara strax við flóttamennina: „Við viljum ekki hjálpa ykkur-þið getið étið það sem úti frýs“.

Hættið að ljúga að okkur og segið það frekar hreint út að þið viljið ekki þetta fólk hingað, svo við getum farið að hætta að eyða enn einu helvítis matarhléinu okkar hér, og getum í staðinn farið að einbeita okkur að því að koma ykkur frá völdum.

Ekki fleiri brottvísanir! Engin landamæri! Engin þjóðríki!

Að setja sig í spor annarra

Myndir þú taka þátt í stríði? Þetta er fjarlæg og óraunveruleg spurning fyrir flesta Íslendinga. Hvað ef stríðið væri borgarastríð? Myndir þú berjast gegn þínu eigin samfélagi, nágranna þínum, fjölskyldu þinni? Hvað ef baráttan er á milli alræðis einræðisherra eða trúarofstækishóps? Sama hvor vinnur þá tapar fólkið. Sama hvor vinnur þá tapar þú.

Fyrir Wajden Drbasea og Ahmad Ibrahim eru þetta ekki fjarlægar og óraunverulegar spurningar. Þeir voru báðir kallaðir til að berjast fyrir stjórnarher Assads í heimalandi sínu Sýrlandi. Báðir kusu þeir að flýja heimaland sitt frekar en að drepa og deyja fyrir fyrir tilverurétt einræðisherrans. Ákvörðun sem ber með sér bæði hugrekki og siðferðislegt þrek, en jafnframt ákvörðun sem leiddi þá út í hættulega óvissuför sem á endanum bar þá til Íslands.

Hefur þú einhvern tímann verið svöng/svangur? Ekki í skilningnum, langt síðan ég borðaði hádegismat, heldur raunverulega svöng/svangur. Sjálfur man ég ekki eftir einum degi á minni æfi þar sem ég fékk ekki eitthvað að borða eða allavega hafði aðgang að mat. Hugtakið að vera svangur er fjarlægt flestum Íslendingum. En eftir fangelsisvistina í Búlgaríu var það allt of raunverulegt fyrir Ahmad.

Hvað með að vera kalt? Hefur þú einhvern tímann vaknað á götunni og áttað þig á því að manneskjan sem svaf við hliðina á þér er látin, að kuldinn sem nístir sjálfa/sjálfan þig inn að beini eftir nóttina beit svo fast að hjá næsta manni slökkti hann lífsneistann sjálfann.

Hefur þú einhvern tímann óttast um líf þitt? Hefurðu búið við að gengi ofbeldismanna geti hvenær sem er veist að þér eða ráðist á þig vitandi að lögreglan mun ekki gera neitt? Hvað myndir þú gera til að bjarga þér af götunni þegar yfirvöld gera ekkert til að aðstoða þig? Ef einhver biði þér vinnu í verksmiðju í 17 til 20 tíma á sólarhring fyrir 7 evrur á dag myndirðu þiggja það? Og þegar yfirmaðurinn neitar að borga þér eftir mánuðinn, hvað gerirðu þá?

Þetta eru ekki aðeins spurningar fyrir Wajden og Ahmad heldur lifandi veruleiki, minningar frá hræðilegri dvöl í Búlgaríu þar sem hælisleitendur eru ekki manneskjur.

Eftir hrakningar sínar komust Wajden og Ahmad til Íslands. En hér beið þeirra hvorki öryggi né sú virðing sem hverri manneskju ber réttur til. Hér beið skriffinsku kerfi sem ólíkt þér lesandi góður er ófært um að setja sig í spor annarra, er ófært um samúð og manngæsku. Kerfið afgreiðir alla eins. Ef þú hefur komið við í öðru Evrópulandi áður en þú komst til Íslands þá ertu sendur til baka án þess að mál þitt sé einusinni skoðað. Skilvirkir tálmar hafa verið settir í veg hælisleitenda hér á landi til að hindra aðgang þeirra að réttarkerfinu, gjafsóknir hafa verið afnumdar fyrir hælisleitendur og mál þeirra fara nú fyrir Kærunefnd útlendingamála frekar en fyrir almenna dómstóla. Kærunefndin virðist samþykkja næstum allt sem kemur frá skrifræðinu í Útlendingastofnun til að koma hælisleitendum eins hratt og skilvirkt úr landi og mögulegt er án þess að þurfa nokkrun tímann að skoða þær aðstæður sem þeir flýja frá.

Kerfið er ekki einusinni samkvæmt sjálfu sér því á meðan reynt er að bjarga sýrlensku flóttafólki með annarri höndinni er Sýrlendingum sem hingað komust af eigin rammleik vísað á brott aftur út í óvissuna.

Seinasta mánudag fengu Wajden og Ahmad loka tilkynningu frá Kærunefnd útlendingamála um að þeir fengju ekki málsmeðferð hér á landi. Að á næstu dögum yrðu þeir sendir aftur til Búlgaríu. Ólöf Norðdal innanríkisráðherra lét þau orð falla á þingi að hætta bæri brottvísunum til landa sem ekki væru örugg og nefndi þar Grikkland og Ítalíu sérstaklega. Búlgaría á svo sannarlega heima á þeim lista líka.

Að neita herþjónustu af samvisku ástæðum eru viðurkennd mannréttindi, sem og rétturinn til að leita hælis í öðru landi þegar réttindi þín eru brotin í heimalandinu. Í Búlgaríu bíður Wajden og Ahmad ekkert nema gatan, ofbeldið, hungrið, kuldinn og þrælavinnan. Í Sýrlandi býður þeirra aftaka fyrir liðhlaup.

Ef þú getur sett þig í spor annarra, ef þú finnur til með þjáningu þeirra sem minna meiga sín, ef það brennur í þér reiði yfir óréttlætinu. Ef þú, eins og ég, trúir því að allir hafi rétt til lífs og mannlegrar virðingar. Þá vil ég biðja þig um að hugsa vel og vandlega um það hversu lengi þú ætlar að láta það líðast að ómanneskjulegt skriffinnskukerfi Útlendingastofnunnar og Kærunefndar ráði örlögum fólks? Fyrir mér er svarið ljóst. Það er komið nóg. Þetta á ekki að líðast einum degi lengur.

 

Höfundur: Hjalti Hrafn Hafþórsson

Ekki bara númer

English version below:

Nú þegar fjöldi flóttamanna í Evrópu hefur náð meiri fjölda en áður er hætta á að allir flóttamenn séu smættaðir niður í tölu á blaði. Það er auðvelt að ráðskast með tölur, flytja þær til eða frá, geyma í búðum eða mínusa þær frá fólksfjölda heimsins. Við fáum þrjátíu og fimm flóttamenn til landsins og þá verður auðveldara að gleyma hinum hundrað sem er fluttir frá landinu í lögreglufylgd, með ekkert í farangrinum annað en eyðslu á tíma og fé og brostnar vonir um að geta kannski einhvern tímann, einhvers staðar, fundið friðsamlegt líf, vinnu, litla íbúð og mögulega fjölskyldu. Aftur er talan send til þess eins að sameinast hinum tölunum í öðrum Evrópulöndum.

En svo stundum kemur það fyrir að tölurnar eignast nafn, og andlit, og verða vinir manns. Vinir sem maður hjálpar við að koma undir sig fótunum, gleðst með þeim þegar þeir finna vinnu, íbúð og — ekki síst hápunkturinn í lífi hvers flóttamanns á Íslandi — öðlast kennitölu. Kennitala. Töfraorðið sjálft. Hversu margir innfæddir Íslendingar átta sig á því hversu miklu máli þessir tíu litlir tölustafir geta skipt? Þeir eru aðgangurinn að samfélaginu, veitir þér möguleika á því að geta farið að vinna, orðið sjálfstæður, hafið nýtt líf.

Einn slíkur vinur er Eze Okafor. Gleði hans var ósvikin þegar hann fékk atvinnuleyfi og kennitölu síðastliðið haust, eftir að hafa dvalið hér sem hælisleitandi í hartnær fjögur ár. Hann var ekki bara kominn með vinnu, heldur loksins var einhver tilgangur, einhver von. Þeirri von tókst íslenska ríkinu að splundra síðastliðinn fimmtudag. Þá hringdi lögreglan í hann sjálfan (en ekki í lögfræðinginn hans eins og reglur segja til um) og tilkynnti honum að hann yrði sendur úr landi næsta mánudag. Þessi tilkynning kom flatt upp á Eze, sem átti síst af öllu von á brottvísun nú því umsókn hans um dvalarleyfi af mannúðarástæðum hafði ekki enn verið tekin fyrir.

Lagaleg staða Eze er raunar nokkuð óljós. Hann hefur dvalið hér sem hælisleitandi frá því í apríl 2012. Útlendingastofnun hefur alla tíð síðan neitað honum um efnismeðferð, sem þýðir að það hefur aldrei verið kannað hvort hann eigi rétt á hæli. Þess í stað úrskurðaði Útlendingastofnun að honum skyldi vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Sá úrskurður var kærður, staðfestur, kærður aftur, áfrýjaður og loks vísað frá. Á meðan leið tíminn, Eze kynntist Íslendingum, fékk hér atvinnuleyfi, vinnu og kennitölu og er nú farinn að líta á þessa hrjóstrugu eyju sem heimili sitt. Mál hans er hins vegar enn talið sem Dyflinnarmál, þó nú séu þrjú ár liðin frá því fresturinn til að senda hann aftur til Svíþjóðar, rann út. Það er ekki Eze sjálfum að kenna að málið hans var fjögur ár í vinnslu, og seinagangur kerfisins hér ætti ekki að bitna á honum. Þegar hann svo bað um að fá að vera hér á þeim grundvelli að hann hefði hér vinnu og tengsl við landið fékk hann þau svör að til þess að sækja um dvalarleyfi þyrfti hann að fara út úr landinu. Hins vegar er hann enn með stöðu hælisleitanda og ekki með lögleg ferðaskilríki og því getur hann ekki yfirgefið landið.

Það vill svo til að ef Eze fengi efnismeðferð yrði honum vafalaust veitt staða flóttamanns, eða í það minnsta fengi hann dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Flóttamannasáttmáli Sameinuðu þjóðanna segir til um að hver sá sem sé ofsóttur í heimalandi sínu vegna trúarskoðana, pólitískra skoðana, kynþáttar eða kynhneigðar og flýi yfir landamæri, sé flóttamaður. Flóttamannasáttmálinn kveður einnig á um að ekki eigi að senda flóttamenn aftur til heimalands síns sé líf hans eða heilsa í hættu.

Eze er ofsóttur í heimlandi sínu vegna trúar sinnar og pólitískra skoðana og honum er hætta búin verði hann aftur sendur þangað. Hann kemur frá svæði sem hefur nú verið yfirtekið af hryðjuverkasamtökunum Boko Haram. Fyrir þá sem ekki vita er Boko Haram alveg eins og ISIS, eini munurinn er að það fyrrnefnda er staðsett í Afríku. Boko Haram er í stríði við nígerísk stjórnvöld og stefnir að því að ná yfirráðum í landinu. Þar sem þau fara yfir skilja þau eftir sviðna jörð og algera eyðileggingu. Þeir fáu sem komast undan geta aldrei snúið til baka, þá verða þau drepin. Boko Haram hafa breiðst mjög út á undanförnum tveimur árum, eru nú komin með útbreiðslu í nágrannalöndum Nígeríu, og hafa fengið kennslu í áróðurstækni frá ISIS. Áróðurstækni sú felst meðal annars í því að höggva höfuðin af svikurum og setja upptöku af því á netið.

Nú er staddur hér maður sem er að flýja undan þessum andskotum. Hann hefur meira að segja verið staddur hér um hríð, enda búinn að vera pikkfastur í íslenska kerfinu í fjögur ár. Bróðir hans var myrtur af Boko Haram og sjálfur var hann tekinn til fanga af þeim og til stóð að gera hann að liðsmanni þeirra. Hann slapp þó undan þeim en var særður alvarlega á enni. Síðar, eftir að hann kom til Íslands, var komin svo slæm ígerð í sárið að við lá að hann missti sjónina en eftir langa bið fékk hann að fara í aðgerð til að laga hana. Boko Haram tekur hins vegar ekki með silkihönskum á þeim sem sleppa undan þeim. Og með nýjustu áróðurstækni úr smiðju ISIS myndu þeir ekki hika við að gera úr honum fordæmi til að koma í veg fyrir að aðrir þori að flýja þá.

En gott og vel, spyrja sumir, fyrst þetta er svona borðleggjandi, af hverju fékk hann þá ekki hæli í Svíþjóð hér um árið?

Fjöldi hælisleitenda í Svíþjóð hefur um árabil verið mikill. Mikill fjöldi veldur því að erfiðara er að skoða hvert mál fyrir sig en fremur er litið til þess hvaðan fólk kemur. Í þeim samanburði hafa Sýrlendingar, Afganir og Írakar öðrum fremur hlotið hæli en fólk af ýmsum öðrum þjóðernum hefur síður hlotið hæli. Oft er það af því álitið er að stjórnvöld í þeirra heimalandi eigi að geta verndað það. Þegar maður er með snarbrjáluð hryðjuverkasamtök á hælunum er þó ekki víst hvernig nokkur ríkisstjórn á að geta verndað mann, síst af öllu ríkisstjórn líkt og í Nígeríu sem ekki aðeins þarf að takast á við Boko Haram og útþenslustefnu þeirra, heldur einnig við spillta lögreglu og her sem enn telja sig vera ríki í ríkinu eftir margra ára setu hershöfðingja í stóli einræðisherra. Engu að síður hefur þessi staða valdið því að fólk frá Nígeríu hefur verið neðarlega á forgangslista þeirra sem veitt er hæli í Evrópu.

Árið 2011, þegar mál Eze var tekið fyrir í Svíþjóð, var 89% þeirra Nígeríubúa sem sóttu um hæli í þar í landi (og hlutu efnismeðferð) hafnað. Árið 2015 hlaut um helmingur þeirra Nígeríubúa sem sóttu um hæli í Svíþjóð (og hlutu efnismeðferð) jákvætt svar. Þetta bendir til þess að sænsk stjórnvöld séu farin að meta það svo að fleiri Nígeríbúar þurfi á alþjóðlegri vernd að halda. Og þar virðist helsta skýringin á auknum fjölda samþykktra hælisumsókna í Svíþjóð vera að leita í aukinni hættu af Boko Haram. Ætli Eze fengi hæli í Svíþjóð ef hann myndi sækja um núna?

Nei, því miður, er líklega svarið. En kannski ef hann hefði sótt um í fyrra. Og þetta hefur þó ekkert að gera með það að hann hafi ekki rétt til þess eða ætti ekki að hljóta það. Ástæðan er eingöngu pólitísk, því Svíar ætla að taka sér smá pásu frá því að samþykkja flóttamenn. Þeim finnst þeir hafa gert nóg í bili og hafa því lokað landamærunum. Héðan í frá og næstu þrjú árin fá flóttamenn eingöngu tímabundið dvalarleyfi. Áttatíu þúsund flóttamönnum mun verða vísað frá landinu.

Eze Henry Okafor er með eindæmum bjúrókratískt óheppinn maður. Hann sótti um hæli í Svíþjóð árið 2011, þegar nær öllum Nígeríubúum var neitað um hæli á grundvelli uppruna síns. Hefði hann sótt um hæli í Svíþjóð árið 2015 eru um helmings líkur eða meiri á að hann hefði hlotið það. Hann lenti milli tveggja „kerfa“ á Íslandi, þar sem mál hans var eitt þeirra sem gat farið alla leið fyrir hæstarétt, en þegar það var kominn tími á að fara fyrir Hæstarétt var hætt að veita gjafsókn í þeim málum. Hann var einn af þeim sem lenti í „stíflunni“ miklu í Innanríkisráðuneytinu árið 2012. Allt hans mál er einstaklega gott dæmi um það hversu illa skrifræðið endurspeglar raunveruleikann og raunverulegar aðstæður fólks. Hann er allt annað en tala á blaði en það er þannig sem kerfið hefur komið fram við hann.

Að manni læðist líka sá illi grunur að óheppni hans stafi líka af því að vera svartur, frá Nígeríu. Eða myndum við koma eins fram við hann ef hann hefði naumlega sloppið frá ISIS?

ENGLISH:

Not Just A Number

Now, when the numbers of asylum seekers in Europe have reached new heights, there is a danger that all refugees will be diminished to a number on a paper. It is easy to manipulate numbers, move them to and from, store in camps or subtract them from the total population. We receive thirty-five refugees to Iceland and immediately it becomes easier to forget the other hundred who are moved from the country in police escort, carrying nothing with them but their own bitter experience and waste of time and money. Shattering their hopes of, maybe someday, building a new, peaceful life, apartment, work and possibly family. The number is moved to Europe to reunite with the other numbers.

But sometimes the numbers have names and faces, and become your friends. Friends who you assist settling down and become happy for when they find a job, an apartment and not least — the high point in every refugee in Iceland — receive their very own kennitala. Kennitala. The magic word. How many native Icelanders understand the importance of these ten little numbers? They form the access to society, the possibility of working, being independent, starting a new life.

One of these friends is Eze Okafor. His happiness was genuine when he received a working permit and kennitala last October, after residing in Iceland for almost four years. He not only had a job, but some purpose and hope. That hope was crushed by the Icelandic state last Thursday, when he got a call from the police (which should have called his lawyer first), to declare that he would be deported the following Monday. The announcement was a shock to Eze, who did not expect a deportation notice since his application for a resident permit on humanitarian grounds had still not been processed by the Directorate of Immigration (UTL).

Eze’s legal position is rather complicated, though. He has lived here as an asylum seeker since 2012. UTL has always denied to process his case, which means that it is still not clear whether he should be granted asylum. Instead the UTL declared that he should be deported on grounds of the Dublin Regulation. That decision was appealed, confirmed, appealed again and dismissed. While all this was going on, time was passing, Eze got to know Icelanders, received his working permit, got a job and kennitala and was already looking at this rugged island as his home. His case was, however, still seen as a Dublin case, even though more than three years had gone by since the deadline to send him back to Sweden as such, had passed. It is not his responsibility that the case took more than four years in the Icelandic system, and he should not bear the brunt of the inefficiency in the system. When he then asked to stay in Iceland, based on having a job and connection with the country after all this time, he got the answer that he had to leave the country, in order to apply for a residency permit. However, he is still an asylum seeker, without legal travel documents and unable to leave the country.

It so happens that if Eze’s case would be processed, he would very likely be given refugee status. The UN Refugee Convention states that whoever is persecuted in their home country on grounds of religion, political opinions, race or sexuality, and flees over international borders, is a refugee. The Refugee Convention furthermore states that no one should be sent back to their country of origin if their life or health is in danger.

Eze is persecuted in his home country, based on his religion and political believes, and his life is in danger if he will be sent back there. He comes from an area which is now ruled by Boko Haram. For those who do not know, Boko Haram is like an African ISIS. It is at war with Nigerian authorities and aims at ruling the country. Wherever they go they leave total destruction. Those who manage to run away cannot return without risking death. Boko Haram has been spreading in the past two years, within and outside Nigeria and, since last summer, it has been taught propaganda techniques by ISIS, including decapitations of “traitors” on camera.

Now there is a man here, fleeing these bastards. He has even been here for a while, stuck within the Icelandic system. His brother was murdered by Boko Haram, he was imprisoned by them and their plan was to incorporate him. He barely got away, badly wounded in his forehead. Later, after coming to Iceland, his wound got so infected that he almost lost his eyesight, after a long wait he managed to have an operation. Boko Haram, however, does not take it lightly if someone escapes them. They would not hesitate to make him an example in order to inflict fear on others, following the example of ISIS.

But, would many ask, if this case is so straight-forward, why was he not granted an asylum in Sweden?

The numbers of asylum seekers in Sweden have been high for many years. These high numbers make it difficult to process individual cases fairly, therefore the authorities mainly look at the country of origin of the applicant. In that comparison, people from Syria, Afghanistan and Iraq have scored high on asylum lists, while other nationalities score lower. Often it is based on whether or not it is assumed that the authorities in those countries are able to offer protection. When you have a bunch of lunatic-terrorists on your heals, however, it is uncertain how any state can protect you, least of all a state like Nigeria, which not only has to deal with Boko Haram and their likes, but also with corrupt police and army, which still look at themselves as a state within the state after many years of military dictatorship. Nonetheless, this situation has made people from Nigeria fall low on the list of favoured asylum seekers.

In 2011, when Eze’s case was processed in Sweden, 89% of all Nigerians who applied for visa in Sweden (and got their case processed) were denied asylum. In 2015, around half of the Nigerians who applied for asylum in Sweden (and got their case processed) were granted asylum. This suggests that the Swedish government now assumes that many more Nigerians are in need of international protection. The most likely reason is more danger posed by Boko Haram. Would Eze be granted an asylum if he would apply now?

Unfortunately, the answer is probably no. But he might have if he would have applied last year. And that has nothing to do with his right to asylum or how much he needs it. The reason is only political, since the Swedes have decided to take a little break from accepting refugees. They feel like they have done enough for now. For the next three years refugees will only be granted temporary residency permits in Sweden. Eighty thousand refugees will be deported.

Eze Henry Okafor is a very bureaucratically unfortunate man. He applied for asylum in Sweden in 2011, when almost all Nigerians were denied asylum on grounds of their origin. If he had applied in 2015, he would have stood a 50% chance, or more, on receiving it. He got stuck between two “systems” in Iceland, where his case could have gone before the high court, but then legal aid in the court system got cancelled. He was one of those who got stuck in the bureaucratic “blockage” in the Ministry of Interior in 2012. Everything about his case is a good example of how poorly bureaucracy reflects the society and people’s real situations. He is everything but a number on a paper, but that is how the system perceives him.

One cannot but wonder, though, if his misfortune also stems from him being black, from Nigeria? Or would he receive the same treatment if he would have barely escaped from ISIS?

Here is a petition to pressure the government to grant Eze permission to stay in Iceland.

And an interview in Harmageddon about his deportation.

« Older posts

© 2017 No Borders Iceland

Theme by Anders NorenUp ↑